Innlent

Flosa sárt saknað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Hans er sárt saknað," segir Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður um Flosa Ólafsson. Flosi lést á Landspítalanum í gær, 79 ára að aldri, eftir bílslys í vikunni sem leið.

Flosi lék eftirminnilegt hlutverk í kvikmynd Stuðmanna, Með allt á hreinu, en Jakob Frímann segist hafa kynnst honum löngu áður en það samstarf hófst. „Ég kynntist honum í raun og veru löngu áður en ég hitti hann, vegna þess að hann var skólafélagi móður minnar í Menntaskólanum á Akureyri og hún sagði gjarnan af honum sögur og fór með kveðskap eftir hann frá því að ég var barn," segir Jakob Frímann. Hann segir að þeir hafi síðan gerst nágrannar á Tjarnargötunni og þá hafi hin formlegu kynni hafist sem leiddu til samstarfs sem var bæði á hljómplötum, sjónvarpsþáttum og í kvikmyndum. „Að ógleymdri hestamennskunni. Við riðum alloft út saman og fórum saman í ferðir um fjöll og firnindi," segir Jakob Frímann. Hann segir að Flosi hafi verið mikill og góður knapi.

„Það stendur eftir minning um einstakan öðlingsmann sem er í alla staði óviðjafnanlega skemmtilegur og mikill öðlingur. Hann skóp sér margþáttaðan vettvang bæði með túlkun og skrifum og söng og leiftrandi greind," segir Jakob Frímann sem sendir eiginkonu Flosa og fjölskyldunni allri innilegustu samúðarkveðjur.




Tengdar fréttir

Flosi Ólafsson látinn

Flosi Ólafsson leikari lést á sjúkrahúsi í gær. Flosi hefur dvalið á sjúkrahúsi undanfarna daga en hann slasaðist í alvarlegu bílslysi í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×