Innlent

Framleiðendur Idols: Mál Björns Jörundar til skoðunar

Framleiðandi Idol Þór Freysson, segir málið til skoðunar í herbúðum Idolsins.
Framleiðandi Idol Þór Freysson, segir málið til skoðunar í herbúðum Idolsins.

„Við erum með málið til skoðunar," segir Þór Freysson framleiðandi Idolsins varðandi mál Björns Jörundar Friðbjörnssonar sem flæktist inn í fíkniefnadóm sem féll yfir kókaínsala fyrr í dag.

Í dómsorði mátti lesa endurrit af símtali Björns Jörundar við Þorvarð Davíð Ólafsson, sem var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir fíkniefnasölu, líkamsárásir og vopnalagabrot.

Í samtali þeirra á milli, sem var hlerað af fíkniefnalögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, kom aldrei beinlínis fram að Björn hefði verið að versla fíkniefni af Þorvarði. Rætt var um „einar" eða „tvíburabróðir" sem voru keyptir af Þorvarði á tólf þúsund krónur.

Þegar Vísir.is ræddi við Björn Jörund fyrr í dag vegna málsins sagði hann að ekki hefði verið um fíkniefnaviðskipti að ræða. Hann sagðist hinsvegar hafa verið yfirheyrður vegna málsins á síðasta ári.

Framleiðendur höfðu ekki kannað málið til hlítar þegar við þá var rætt og voru að kynna sér það. Að sögn Þórs má vænta viðbragða í fyrsta lagi á morgun vegna málsins en þeir höfðu ekki rætt við Björn sjálfan.

Dómurinn sem féll yfir Þorvarði datt út af vef Héraðsdóms Reykjavíkur eftir að Vísir birti frétt um Björn Jörund. Þegar haft var samband við ritara dómsins fengust þau svör að dómurinn hefði dottið út af tæknilegum ástæðum og unnið væri að því að koma honum aftur inn. Hann hefur ekki enn verið endurbirtur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×