Formúlu 1 hönnuðurinn Hermann Tilke er að hanna Formúlu 1 götubraut í Prag og verður hún í miðborginni.
Brautin á að vera um 4 km að lengd og verður fyrst notuð í DTM mótaröðinni þýsku til prufu. Óljóst er hve langt Toni Charouz, hugmyndasmiðnum að baki brautinni miðar í að fá Bernie Ecclestone á sitt band í málinu.
"Brautin verður í miðborg borgar sem hýsir 1.5 miljónir manna og ég tel að svona braut sé framtíðin, en áhorfendasæti fyrir 15.000 manns verða sett á aðalsvæðinu í miðborginni", sagði Charouz.
Mikil hefð er fyrir akstursíþróttum í Tékklandi, bæði í kappakstri á bílum og mótorhjólum og Skoda var lengi vel mjög áberandi í rallakstri á heimsvísu.
Ecclestone er mjög spenntur fyrir brautm í miðborgum og hann er að kanna möguleika á móti í Manhattan í New York. Þá er verið að vinna að móti í París.
Ecclestone vill að 20 mót verði á dagskrá í Formúlu 1, en á næsta ári verða 19 mót á dagskrá og ný götubraut í Suður Koréu verður tekinn í notkun.