Innlent

Ekki mútugreiðslur

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mynd/Anton Brink
„Þarna er lítið sveitarfélag að takast á við gríðarlega stórt verkefni sem kostar mjög mikið og það er ekkert óeðlilegt að það sé farið fram á það við framkvæmdaaðila að hann greiði kostnað sem fellur á sveitarfélagið," segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um greiðslur Landsvirkjunar til sveitarfélaga vegna fyrirhugaðra virkjana. Ekki sé um mútugreiðslur að ræða.

Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að Landsvirkjun hafi greitt fyrir fundarsetu sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um fyrirhugaðar virkjanir í hreppnum. Sveitarstjórnarmenn fengu greitt frá Landsvirkjun í gegnum hreppinn.

„Mér finnst vera of mikið verið að gefa í skyn að þarna sé um mútugreiðslur að ræða. Ég lít ekki þannig á málið," segir Halldór.

Halldór bendir á að samkvæmt lögum sé leyfilegt að krefja framkvæmdaaðila um greiðslur við umfangsmiklar framkvæmdir sem eru matsskyldar. Ekki sé óeðlilegt að framkvæmdaaðili greiði fyrir kostnað sem sveitarfélag verður fyrir við skipulagsvinnu.

„Svo er það málefni sveitarstjórnarmanna að svara fyrir það hvað liggur á bak við ákvörðunum þeirra," segir Halldór.

Halldór segir að í frumvörpum til nýrra skipulagslaga og laga um mannvirki sé gert ráð fyrir rýmri gjaldtökuheimildum en þær sem eru í núverandi lögum. Þannig verði skýr heimild til þess að krefja umsækjendur um byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi um allan kostnað vegna skipulagsbreytinga sem hljótast af fyrirhugaðri framkvæmd.






Tengdar fréttir

Greiðslur Landsvirkjunar til sveitarstjórnarmanna út úr kortinu

„Þetta lyktar ekki vel,“ segir formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands um greiðslur Landsvirkjunar til sveitarstjórnarmanna sem greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Mér finnst þetta vera út úr kortinu,“ segir formaðurinn.

Landsvirkjun greiddi sveitarstjórnarmönnum fyrir skipulagsvinnu

Landsvirkjun greiddi fyrir fundarsetu sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, um fyrirhugaðar virkjanir í hreppnum. Hver sveitarstjórnarmaður fékk 200 þúsund krónur, segir fyrrverandi sveitarstjóri. Oddviti hreppsins staðfestir að hafa fengið greiðslur frá Landsvirkjun, í gegnum hreppinn, en er ósáttur við að vera sakaður um mútuþægni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×