Handbolti

Patrekur: Hörkuleikir sem bíða okkar

„Við fórum með allt of mikið af dauðafærum. Við minnkum þetta í eitt mark en til að klára Hauka hefði þurft meira. Við vorum nálægt því en ekki nægjanlega. Við verðum bara að taka því," sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar eftir ósigurinn gegn Haukum.

„Markvarslan var ekkert sérstök í dag og það er kannski það sem klikkar og gegn liði eins og Haukum þá þarf allt að smella. Það var möguleiki í dag, þeir voru að hvíla lykilmenn en við getum sjálfum okkur um kennt. Við hefðum þurft að nýta dauðafærin betur og spila betur eins og við höfum gert í síðustu leikjum á undan."

„Við erum komnir í þessa úrslitakeppni og það er nýtt verkefni sem við þurfum að takast á við, ÍR bíður okkar. Þetta verða hörkuleikir og hef ekki velt því mikið fyrir mér en ég hef engar áhyggjur ef við náum að spila eins og við höfum gert í leikjunum á undan þessum í dag. Þetta eru hörkulið, Afturelding, Selfoss og ÍR. Þetta eru gríðarleg vonbrigði í dag en við höfum tíma til að hrista það af okkur," sagði Patrekur.

Það verða Stjarnan, Afturelding, Selfoss og ÍR mætast í úrslitakeppni um laust sæti í N1 deildinni á næstu leiktíð.

Fjölda leikmanna hefur vantað í lið Stjörnunnar í vetur vegna meiðsla en Patrekur á ekki von á öðru en fara með sama leikmanna hóp og hann var með í dag í úrslitakeppnina.

„Ólafur Víðir er þannig séð hættur, Roland hefur verið óvenju lengi frá og ég á ekki sérstaklega von á honum en ég er sáttur við minn hóp og treysti þeim til að klára þessa leiki í úrslitakeppninni. Ég hefði viljað fá aðeins meiri stuðning á pöllunum en ég vil þakka þeim sem mættu, ég þekkti held ég 80% af þeim en þakka þeim sem mættu," sagði Patrekur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×