Birgir Leifur Hafþórsson stendur vel að vígi á móti í Portúgal eftir annan keppnisdag sem fór fram í dag. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi.
Birgir Leifur er í átjánda sæti mótsins eftir að hann lék á einu höggi undir pari í dag eða 70 höggum. Samtals er hann á einu höggi yfir pari og átta höggum frá efsta manni.
Eins og staða hans gefur til kynna var hann langt frá niðurskurðinum en efstu 74 keppendurnir fá að halda áfram eða þeir sem léku samtals á sex höggum yfir pari á fyrstu tveimur dögunum.
Birgir Leifur fékk fjóra fugla í dag og einn skolla. Hann hefur enn ekki fengið skramba á mótinu.