Innlent

Þrír stjórnmálaflokkar tefja endurskoðun laga

Seinagangur Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins og veldur því að vinna nefndar við endurskoðun laga um fjármál stjórnmálaflokkanna tefst. Flokkarnir áttu að skila tilnefningum sínum í nefndina til forsætisráðherra fyrir 1. maí eða fyrir tæpri viku síðan. Eftir þingkosningarnar 25. apríl var Borgarahreyfingunni boðið að skipa fulltrúa í nefndina og skilaði flokkurinn tilnefningum sínum í dag.

Í kjölfar umræðu um fjármál stjórnmálaflokkanna og frambjóðenda þeirra sendi Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, formönnum þeirra flokka sem áttu fulltrúa á Alþingi bréf 22. apríl þar sem hún óskaði þess að lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðanda yrðu endurskoðuð. Jafnframt vildi Jóhanna að Ríkisendurskoðun yrði falið að gera úttekt á fjárreiðum flokkanna og eftir atvikum frambjóðendum þeirra vegna prófkjara á árunum 1999 til 2006.

Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir hafa tilnefnt sína fulltrúa í nefndina. Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir að búið sé að senda Framsóknarflokknum og Frjálslynda flokknum ítrekun. Jafnframt hafi Borgarahreyfingunni verið boðin aðild að nefndinni eftir að flokkurinn fékk fjóra þingmenn kjörna í kosningunum fyrir hálfum mánuði.

„Um leið og tilnefningar berast frá þessum aðilum verður nefndin sett til starfa," segir Hrannar. Hann reiknar með því að nefndinni verði gert að skila tillögum sínum með haustinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×