Körfubolti

Pressan á Lakers og Celtics

Paul Pierce og félagar í Boston komu þreyttir inn í einvígið við Orlando eftir rosalega rimmu við Chicago
Paul Pierce og félagar í Boston komu þreyttir inn í einvígið við Orlando eftir rosalega rimmu við Chicago AP

Hin sögufrægu NBA-lið LA Lakers og Boston Celtics þurfa bæði nauðsynlega á sigrum að halda í úrslitakeppninni í kvöld.

Bæði lið töpuðu fyrsta leik sínum í annari umferðinni á heimavelli í fyrrinótt og koma sér því í vandræði ef þau klára ekki heimaleiki sína í kvöld.

Boston á í höggi við sterkt lið Orlando og tapaði fyrsta leiknum á heimavelli líkt og í maraþonrimmunni við Chicago í fyrstu umferðinni.

Hafi tap Boston á heimavelli komið á óvart, kom tap Lakers á heimavelli fyrir Houston í fyrsta leik eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Flestir reikna með að Lakers-liðið muni vinna nokkuð öruggan sigur í þessu einvígi, en ljóst er að Houston getur komið sér í mjög huggulega stöðu í einvíginu með öðrum sigri í Los Angeles í kvöld.

Leikur Lakers og Houston verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni klukkan hálfþrjú í nótt.

Þriðji leikur Boston og Orlando verður sýndur beint á Stöð 2 Sport á föstudagskvöldið klukkan 23:00.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×