Viðskipti innlent

Nýtt félag stofnað um víðtæka ráðgjöf

Magnús Bjarnason
Magnús Bjarnason

Capacent Glacier heitir nýtt ráðgjafarfyrirtæki með átján starfsmenn sem einbeitir sér að fjármálaráðgjöf hér innanlands og ráðgjöf á sviði sjávarútvegs og jarðvarma á erlendri grundu.

Tilkynnt var um stofnun félagsins í gær, en í því er sögð koma saman margra ára reynsla starfsmanna Capacent á sviði fjármálaráðgjafar og þekking og tengsl fyrrum starfsmanna Glitnis í ráðgjöf til alþjóðlegra fyrirtækja í sjávarútvegi og jarðvarma. Félagið á svo samstarf við ráðgjafarfyrirtækin Glacier Partners í Bandaríkjunum og Pritchard Capital, sérhæft verðbréfafyrirtæki á orkusviði.

Capacent Glacier er með tólf starfsmenn á Íslandi og Glacier Partners með sex starfsmenn í Bandaríkjunum. Félagið er sagt að helmingi í eigu Capacent og að helmingi í eigu stjórnenda, en fyrir því fer framkvæmdastjórinn Magnús Bjarnason, sem áður bar ábyrgð á starfsemi Glitnis á sviði endurnýjanlegrar orku og sjávarútvegs. Sigurður Harðarson, sem veitt hefur fjármálaráðgjöf Capacent forstöðu, er framkvæmdastjóri rekstrar Capacent Glacier. Jón Garðar Guðmundsson ber ábyrgð á sjávarútvegsmálum og Sigurður Valgeir Guðjónsson leiðir fyrirtækjaráðgjöf félagsins.

Hjá Glacier Partners í Bandaríkjunum starfa meðal annars „Timothy Spanos, sem hefur 20 ára reynslu frá Bank of America, Sigurður Jón Björnsson, sem tók þátt í uppbyggingu Framtaks fjárfestingabanka og Ignacio Kleiman, sem stafað hefur fyrir Rabo Bank, Deutche Bank og JP Morgan".

Haft er eftir Þór Elliðasyni að með samstarfi Capacent Glacier og ráðgjafareininga Capacent á Íslandi og á Norðurlöndunum verði til grundvöllur fyrir nýja þjónustu við viðskiptavini, svokallaða „one stop shop" þjónustu. Hingað til segir hann ekkert fyrirtæki hafa getað boðið í einu upp á á þjónustu á sviði fjárhagslegar endurskipulagningar, fjármögnunar, ráðninga, markaðsrannsókna, stefnumótunar og stjórnunarráðgjafar. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×