Innlent

Þóra sækist eftir 2-3. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Þóra Þórarinsdóttir.
Þóra Þórarinsdóttir.
Þóra Þórarinsdóttir fyrrverandi ritstjóri fréttablaðsins Gluggans á Suðurlandi hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2.-3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

,,Á Íslandi hafa verið umbrotatímar. Framundan er tími mikilvægrar uppbyggingar sem sinna þarf að af vandvirkni, krafti og auðmýkt. Fjölmargir einstaklingar víðs vegar að úr kjördæminu hafa að undanförnu skorað á mig að bjóða fram krafta mína til þeirra verka og hef ég ákveðið að verða við þeirri áskorun," segir Þóra í tilkynningu.

Þóra segir að Íslendingar geri kröfur um breytingar. Í ljósi undangenginna atburða eru það sanngjarnar kröfur að hennar mati. ,,Mörg þeirra lífsgilda sem um langan tíma voru hér í heiðri höfð og lúta að samhug, jöfnuði og mannkærleika, viku um stund. Þeirra þarf að leita að nýju. Ég er þess fullviss að í sameiningu getum við endurvakið þessi gildi og breytt áherslum."

,,Ég hef um langt skeið verið óflokksbundin þó að lífsgildi mín hafi verið hverjum manni ljós," segir Þóra.

Þóra telur áríðandi að það fólk sem velst til starfa fyrir þjóðina hafi sem víðtækasta reynslu úr þjóðlífinu og skýra framtíðarsýn. ,,Við þurfum að laða fram það besta fram í fari einstaklinga, mannlífs og þjóðar. Ég tel mig hafa reynslu sem nýtast mun Íslendingum og sækist því eftir 2.- 3ja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar hinn 7. mars," segir Þóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×