Austurríkismaðurinn Josef Fritzl játaði í morgun fyrir dómi að hafa nauðgað dóttur sinni og þar með framið sifjaspell. Hann játar ekki á sig um morð eða að hafa hneppt dóttur sína og börn þeirra í ánauð í áratugi.
Réttarhöldin yfir Fritzl hófust í St. Poelten í Austurríki í morgun.
Fritzl var ákærður fyrir að hafa fangelsað dóttur sína í dýflissu í kjallara heimilis síns í tuttugu og fjögur ár og þannig hneppt hana í ánauð. Hann er einnig ákærður fyrir sifjaspell en hann nauðgaði dóttur sinni of og gat með henni sjö börn. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa fangelsað sex barnanna og fyrir að hafa myrt það sjöunda og brennt líkið í kyndiklefa hússins.
Fyrir dómi í morgun játaði Fritzl að hafa nauðgað dóttur sinni og þannig að hann hafi framið sifjaspell. Hann sagðist hins vegar ekki hafa fangelsað hana og börnin og sagðist ekki hafa framið morð.
Fórnarlömbin bera ekki vitni fyrir dómi en átta manna kviðdómur mun hins vegar sjá upptöku af vitnisburði Elísabetar, dóttur Fritzl. Einnig verður sýnd upptaka af vitnisburði Haraldar, eldri bróður Elísabetar.
Saksóknari sagði í upphafræðu að Fritzl hefði fyrstu árin lítið talað við dóttur sína þegar hann hafi komið í dýflissuna og hafi eitt sinn refsað henni fyrir óþægð með því að skrúfa fyrir rafmagn í kjallaranum. Saksóknari lýsti slæmri aðstöðu í dýflissunni og sagði Fritzl stundum hafa nauðgað dóttur sinni fyrir framan börnin sem hún hafði alið honum.
Verjandi Fritzl sagði skjólstæðing sinn mann en ekki skrímsli og bað kviðdómendur um að gæta hlutleysis.
Um tvö hundruð fréttamenn eru nú í St. Poelten til að fylgjast með réttarhöldunum. Innan við hundrað hafa leyfi til að fara inn í dómshúsið. Myndataka er mjög takmörkuð. Flugumferð yfir dómshúsinu er bönnuð til að koma í veg fyrir að þyrlur fréttastöðva sveimi yfir því alla vikuna.
Réttarhöldin standa aðeins í tæpa viku og búist við niðurstöðu kviðdóms á föstudaginn. Josef Fritzl gæti átt yfir höfði sér lífstíðar fangelsi verði hann sakfelldur fyrir morð.