Innlent

Sá fyrir erfðabreyttu byggi

Frá kynningarfundi um málið fyrr í mánuðinum Hér er Björn að kynna fyrirætlanir ORF en nú er leyfið fengið svo ekkert er að vanbúnaði að fylgja þeim eftir. fréttablaðið/vilhelm
Frá kynningarfundi um málið fyrr í mánuðinum Hér er Björn að kynna fyrirætlanir ORF en nú er leyfið fengið svo ekkert er að vanbúnaði að fylgja þeim eftir. fréttablaðið/vilhelm

Umhverfisstofnun veitti í gær ORF líftækni leyfi til að rækta erfðabreytt bygg utandyra. Leyfið er þó háð skilyrðum eins og því að Umhverfisstofnun muni fá að hafa eftirlit með ræktuninni og að ræktunarsvæðið verði innan girðinga sem og varðbelta.

„Við teljum þessi skilyrði alveg sjálfsögð og munum auðvitað fylgja þeim í einu og öllu,“ segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann segir ennfremur að þegar verði hafist handa við að sá, þó ljóst megi vera að ekki fáist uppskera í ár. Bændur sem rækta bygg hér á landi hefja yfirleitt sáningu snemma í maí svo sáning nú er nokkuð seint á ferðinni. „Hins vegar er þetta tilraunaverkefni og við getum gert margar þessara tilrauna þó að við fáum ekki uppskeru,“ segir Björn Lárus.

Í niðurstöðu Umhverfisstofnunar segir að stofnunin telji hverfandi líkur á því að erfðabreytta byggið breiðist út í náttúruna. Eins eru taldar hverfandi líkur á að víxlfrjóvgun erfðabreytta byggsins við annað bygg eða plöntu geti átt sér stað. Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur, sem fjallaði um umsóknina, var ekki einróma, tveir af níu nefndarmönnum lögðust gegn því að leyfið yrði veitt. - jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×