Innlent

Viðbrögð við flensu mikil en skiljanleg

óttinn við flensuna Fólk víða um heim bjó sig undir heimsfaraldur á við spænsku veikina. Hér heima seldust rykgrímur upp í sumum apótekum. Myndin sýnir kennslustofu í Mexíkó. nordic photos/afp
óttinn við flensuna Fólk víða um heim bjó sig undir heimsfaraldur á við spænsku veikina. Hér heima seldust rykgrímur upp í sumum apótekum. Myndin sýnir kennslustofu í Mexíkó. nordic photos/afp

Fyrstu fregnir af svínaflensunni í Mexíkó báru með sér að um banvæna sótt væri að ræða sem legðist þungt á þá sem fyrir henni urðu. Fólk um allan heim bjó sig undir það versta; að nýr faraldur á borð við spænsku veikina væri á leiðinni með tilheyrandi dauðsföllum. Nú, réttum hálfum mánuði síðan fyrstu fregnir bárust, hafa tæplega 2.500 manns sýkst, þar af um helmingur í Mexíkó, og 46 hafa látist.

Það er því kannski ekki óeðlilegt að menn spyrji sig hvort viðbrögðin hafi verið út úr kortinu. Hvort það að hamstra flensulyf og rykgrímur hafi verið nauðsynlegt. Nefna má til samanburðar að í Bandaríkjunum einum deyja um 36 þúsund úr venjulegri flensu árlega og á bilinu 250 til 500 þúsund um allan heim.

„Það er nú hægt að afsaka þessi viðbrögð í upphafi þar sem fyrstu fregnir báru með sér að pestin væri skæð. Þær voru einnig óljósar þannig að það var ekki verjandi annað en að hafa viðbúnað. Þetta voru óvissutímar og verður að fyrirgefast,“ segir Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir. Hann segir heilbrigðisyfirvöld hér hafa talað gegn því að fólk væri að hamstra lyf og grímur. Nægar birgðir séu til hjá yfirvöldum og hvað grímurnar varði séu það helst heilbrigðisstarfsmenn í návígi við sjúkdóminn sem þurfi á þeim að halda.

Ýmsir, svo sem breski blaðamaðurinn Simon Jenkins, hafa velt því upp hvort stórfyrirtæki í lyfjaiðnaði og tengdum vörum ýti undir ótta fólks um heimsfaraldur. Þá hlaupi fjölmiðlar til í leit að æsifréttum og helli olíu á eldinn til að búa til góða frétt.

Haraldur segir að vissulega stýri fjölmiðlar umræðunni og ráði miklu um þá stemningu sem ríkir. Hins vegar sé rétt að taka hættuna alvarlega, 41 ár sé síðan síðasti heimsfaraldur inflúensu kom upp og því líklegt að annar sé væntanlegur einhvern tímann á næstunni. Hve alvarlegur hann verði sé hins vegar ekki vitað.

Svínaflensan er nú að þróast út í að verða inflúensa með nýrri veiru. Haraldur segir útbreiðsluna nú í takt við fyrstu bylgju slíkrar flensu og gera megi ráð fyrir að hún komi aftur upp í haust. Mikilvægt sé hins vegar að taka hlutunum með ró; nægur tími sé til stefnu og verið sé að vinna að þróun bóluefnis. „Það er engin ástæða til að vera með ofsahræðslu núna.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×