Viðskipti innlent

FME sektar Marel um milljón vegna verðbréfaviðskipta

Þann 4. desember 2008 tók stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) ákvörðun um að sekta Marel Food Systems hf. vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti . FME taldi með vísan til atvika máls að öðru leyti, þ.e. stjórnvaldssekta í sambærilegum málum, að hæfileg sekt væri kr. 1.000.000,-.

Í umfjöllun um málið á heimasíðu FME segir að Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Marel hefði brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti með því að birta ekki tilkynningu innan tilskilinna tímamarka um viðskipti tveggja fjárhagslega tengdra aðila stjórnarformanns félagsins, Árna Odds Þórðarsonar.

Um var að ræða kaup á hlutum í félaginu þann 15. maí 2008 og var FME tilkynnt samdægurs um viðskiptin . Hins vegar var ekki send tilkynning um viðskiptin til skipulegs verðbréfamarkaðar þegar í stað líkt og lög kveða á um heldur þann 20. maí 2008 eftir ábendingu FME þar um. Var því markaðurinn ekki upplýstur um viðskiptin fyrr en þremur viðskiptadögum síðar.

Fram kom í samskiptum FME við félagið að umrædd háttsemi hefði átt sér stað vegna mistaka og að um einfalt gáleysi hefði verið að ræða og að félagið hefði farið betur yfir ferli tilkynninga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slík mistök ættu sér stað aftur.

Með hliðsjón af málsatvikum bauð FME félaginu að ljúka málinu með sátt þar sem það taldi að ekki væri um meiri háttar brot að ræða. Félagið hafnaði sáttinni og var því málinu lokið með ákvörðun stjórnar FME.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×