Enski boltinn

Nani vælir yfir Ferguson

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Félagarnir Nani og Ferguson.
Félagarnir Nani og Ferguson. Nordic Photos/Getty Images

Vængmaður Man. Utd, Nani, greinir frá því ítarlegu viðtali viðtali við portúgalskt dagblað hversu erfitt lífið getur verið undir stjórn Sir Alex Ferguson.

Nani segir að þó svo Ferguson geti verið erfiður níðist hann ekki alltaf á sömu leikmönnunum. Menn eins og Ryan Giggs og Gary Neville fái einnig sinn skammt af skömmum.

„Ferguson er flókinn einstaklingur. Hann er harður. Hann er góður þegar allt er í lagi en þegar illa gengur er allt brjálað. Hrós geta breyst í skammaryrði á mettíma. Ég fæ minn skammt af skömmunum," sagði Nani.

„Hann öskrar á leikmenn fyrir framan alla. Það sleppur enginn. Giggs og Neville fá helst að heyra það enda reyndastir. Hann er duglegur að nota F-orðið."

Ferguson hefur venjulega ekki tekið vel í það ef leikmenn gagnrýna hann í viðtölum og það er einmitt það sem Nani gerir.

„Mér finnst ég ekki fá næg tækifæri. Það er mikið eftir af tímabilinu en ég fékk ekki að spila í stóru leikjunum. Það eru vonbrigði en ég var samt aðeins meiddur. Við skulum sjá hvað gerist," sagði Nani.

„Það er búist við meiru af mér og það er ekki auðvelt. Ég er heldur ekki að fá þau tækifæri sem talað var um. Ég veit líka að hlutirnir væru auðveldari ef ég skoraði meira. Það fer samt illa með sjálfstraustið að eiga ekki öruggt sæti í liðinu eftir góða leiki," sagði Nani sem er ekki að íhuga að yfirgefa félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×