Erlent

Háhyrningar elska hákarlalifur

Óli Tynes skrifar
Háhyrningur gæðir sér á sleggjuhákarli.
Háhyrningur gæðir sér á sleggjuhákarli.

Nýsjálenskur vísindamaður segir að fullorðnir háhyrningar í mörgum háhyrningavöðum í heimshöfunum hafi lært að drepa hákarla til þess að éta úr þeim lifrina sem þeim þykir mesta lostæti.

Hákarlar eru hættulegir andstæðingar og Dr. Ingrid Visser segir að það sé aðeins á færi fullorðinna og reyndra háhyrninga að drepa þá.

Það gera þeir með því að synda undir hákarlana og blaka sporðinum kröftuglega án þess þó að snerta þá. Með því þrýsta þeir hákarlinum upp á yfirborðið.

Þegar hákarlinn er kominn upp á yfirborðið snarsnúa háhyrningarnir sér við og dúndra sporðinum niður á þá, sem er eins og karate högg.

Að því búnu grípa þeir í hákarlinn með kjaftinum og snúa honum á bakið. Af einhverjum ástæðum lamast hákarlar ef þeim er snúið á bakið.

Svo setjast háhyrningarnir að snæðingi. Visser segir að háhyrningar éti að minnsta kosti níu hákarlategundir. Meðal annars hvítháfa sem eru taldir stærstir og hættulegastir hákarla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×