Handbolti

Aron: Fínt fyrir menn til að ná af sér jólasteikinni

Elvar Geir Magnússon skrifar

Það verða Haukar og Akureyri sem mætast í úrslitum deildabikarsins annað kvöld. Haukar unnu Val í dag 29-22 en sigur þeirra var aldrei í hættu.

„Það vantaði leikmenn í bæði lið en mér fannst mínir menn sína ágætis sigurvilja og baráttuanda," sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn.

„Menn voru að berjast vel í vörninni, markvarslan var góð og sóknarleikurinn öflugur. Maður getur því ekki annað en verið sáttur. Ég ákvað að gefa eldri leikmönnum frí í þessum leik," sagði Aron sem vildi ekki segja til um hvort þeir myndu líka fá frí í úrslitaleiknum.

„Við sýndum fínan karakter og svo var Aron (Rafn Eðvarsson) frábær í markinu í seinni hálfleik. Það var líka gaman að sjá unga stráka spila og standa sig vel."

Deildabikarinn er nokk umdeilt mót en hvernig horfir það við Aroni? „Það var eiginlega búið að flauta þetta mót af og mér finnst að það hefði átt að halda sig við það. Það var tekin ákvörðun um að spila það og við bara tökum þátt í því. Það er fínt fyrir menn til að ná af sér jólasteikinni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×