Innlent

Ákært fyrir vændi og mansal í fyrsta skipti

Vændi á hverfisgötu Catalinu er meðal annars gefið að sök að hafa gert út nokkrar vændiskonur úr þessu húsi við Hverfisgötu – steinsnar frá lögreglustöðinni.Fréttablaðið/gva
Vændi á hverfisgötu Catalinu er meðal annars gefið að sök að hafa gert út nokkrar vændiskonur úr þessu húsi við Hverfisgötu – steinsnar frá lögreglustöðinni.Fréttablaðið/gva

Catalina Mikue Ncogo, íslensk kona ættuð frá Miðbaugs-Gíneu, hefur verið ákærð fyrir mansal og vændisstarfsemi. Henni er meðal annars gefið að sök að hafa blekkt unga konu til landsins og haldið henni hér í kynlífsánauð. Aldrei áður hefur verið ákært í mansals- eða vændismáli á Íslandi.

Ákæran á hendur Catalinu, sem er 31 árs, verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness dag. Finnur Bergmannsson, 43 ára, er ákærður fyrir hlutdeild í brotunum.

Ákæran á hendur Catalinu er í tveimur liðum. Í þeim fyrri er hún sökuð um mansal, hótanir og ólögmæta nauðung. Þar er hún sögð hafa blekkt 26 ára konu frá Miðbaugs-Gíneu til landsins í júní í fyrra undir því yfirskyni að hún kæmi hingað í frí. Hún hafi síðan hýst hana á tveimur stöðum í Hafnar­firði þar sem hún neyddi hana til að stunda vændi með því að hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum. Hún hafi jafnframt svipt fórnarlamb sitt fatnaði og skilríkjum til að hafa á henni tangarhald.

Í öðrum lið ákærunnar er hún sökuð um að hafa haft viðurværi sitt af vændi konunnar, tveggja annarra nafngreindra kvenna, sem báðar eru ættaðar frá Miðbaugs-Gíneu, „og fleiri ónafngreindra kvenna“, eins og það er orðað í ákæru. Vændisstarfsemi þessi er sögð hafa átt sér stað árin 2008 til 2009.

Segir í ákærunni að Catalina hafi haft milligöngu um að fjöldi manna hefði samræði eða önnur kynferðismök við konurnar. Þeir þurftu að greiða 20 til 25 þúsund krónur fyrir. Hún leigði íbúðarhúsnæði á fjórum stöðum í höfuð­borginni undir starfsemina, tvær íbúðir í Hafnarfirði og tvær í Reykjavík.

Þriðji liður ákærunnar snýr að þætti Finns Bergmannssonar. Finnur er ákærður fyrir að uppfæra auglýsingar um vændið á vefsíðum og taka myndir af konunum gegn greiðslum frá Catalinu. Finnur rekur hugbúnaðarþjónustu og selur bókhaldsforrit.

Konurnar þrjár sem stigið hafa fram í málinu og eru nafngreindar í ákæru fara allar fram á 800 þúsund krónur í miskabætur frá Catalinu.stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×