Lífið

Friðrik Ómar eini viðskiptavinur Jógvans

Hárgreiðslumaður í heimsendingu
Jógvan mundar sig við að lita hárið á Friðriki og klippa fyrir landsbyggðarferð þeirra félaga. Fréttablaðið/Stefán
Hárgreiðslumaður í heimsendingu Jógvan mundar sig við að lita hárið á Friðriki og klippa fyrir landsbyggðarferð þeirra félaga. Fréttablaðið/Stefán

„Friðrik er eini viðskiptavinurinn enda er ég hættur í bili með skærin," segir Jógvan Hansen, fyrrverandi hárgreiðslumaður. Hann stundar nú nám við Keili, háskólann í Reykjanesbæ, á félagsfræðibraut og hefur tekið sér ársleyfi frá hárskerðingum og litun. Samstarfsmaður hans í tónlistinni, Friðrik Ómar, nýtur hins vegar þess heiðurs að vera eini viðskiptavinur Jógvans.

Þeir félagar eru á leiðinni norður á land í dag, spila á Græna hattinum í kvöld og svo á Dalvík á morgun. Litun og klipping heima hjá Friðriki er liður í undirbúninginum. „Ég sé um kaffið og hann „sjænar" á mér hárið," segir Friðrik en þeir félagar kynntust einmitt þegar Friðrik tók að venja komur sínar á hárgreiðslustofu Jógvans. Færeyingurinn og Birna á Akureyri eru þau einu sem fá að hafa hendur í hári Eurovision-stjörnunnar.

Samstarf þeirra Friðriks og Jógvans er nú að geta af sér plötu. Þar syngur Jógvan íslensk dægurlög á færeysku og Friðrik færeysk lög á íslensku. Þeir félagar hyggjast leggja land undir fót síðar í þessum mánuði, með fimm manna hljómsveit og leika lög af þessari plötu. Friðrik Ómar kveðst vera spenntur fyrir því að koma til Færeyja, þangað hafi hann aldrei komið áður.

„Nei, býr ekki þarna hið vænsta fólk? Þeir lánuðu okkur allavega fyrstir pening eftir 6. október," segir Friðrik.

Jógvan unir hag sínum vel í Reykjanesbæ þar sem hann býr ásamt konu sinni en hún er stærðfræðikennari. Hann segir hátt bensínsverð hafa gert gæfumuninn í þeirri ákvörðun sinni að leggja hárgreiðsludótið á hilluna í bili. „Já, það er ekkert sérstaklega hagstætt að keyra milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur þrisvar í viku."- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.