Innlent

Bæjarfulltrúar Kópavogs gætu fengið tveggja ára fangelsi

Sigríður Mogensen skrifar

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar getur átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi en hún hefur verið kærð til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Í stjórninni sitja Gunnar I. Birgisson, Ómar Stefánsson, Flosi Eiríksson, Jón Júlíusson og Sigrún Guðmundsdóttir.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í dag.

 

Gunnar I. Birgisson, fráfarandi bæjarstjóri, er formaður stjórnarinnar. Ómar Stefánsson situr í stjórninni fyrir hönd Framsóknarflokks og Flosi Eiríksson fyrir Samfylkinguna. Jón Júlíusson situr í stjórn sjóðsins fyrir hönd starfsmanna bæjarins. Fimmti stjórnarmaðurinn er Sigrún Guðmundsdóttir.

 

Samkvæmt heimildum fréttastofu liggur grunur á að stjórnin hafi brotið 36. grein lífeyrissjóðalaganna sem fjallar um fjárfestingastefnu lífeyrissjóða. Þá er grunur um að stjórn lífeyrissjóðsins hafi brotið 147. grein almennra hegningarlaga.

 

Brot af þessu tagi geta varðað háum sektum og allt að tveggja ára fangelsi.

 

Samkvæmt heimildum fréttastofu varð trúnaðarbrestur milli Fjármálaeftirlisins og stjórnar lífeyrissjóðs starfsmanna kópavogsbæjar. Stjórnin er sökuð um að hafa beitt blekkingum og gefa Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar um lánveitingar sjóðsins, meðal annars til Kópavogsbæjar. Eftir að ítrekuðum kröfum Fjármálaeftirlitsins um úrbætur var ekki sinnt kærði Fjármálaeftirlitið starfshætti stjórnarinnar til lögreglu.

 

Að tillögu eftirlitsins skipaði Fjármálaráðherra sjóðnum síðan umsjónaraðila í dag. Hann tók við öllum réttindum og skyldum stjórnar og framkvæmdastjóra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×