Enski boltinn

Evra hættur að drekka Sprite - drykkurinn minnir hann á Írland

Ómar Þorgeirsson skrifar
Patrice Evra.
Patrice Evra. Nordic photos/AFP

Franski landsliðsmaðurinn Patrice Evra hjá Manchester United á greinilega erfitt með að hugsa ekki um leikinn mikilvæga á milli Írlands og Frakklands í umspili um laust sæti á HM næsta sumar ef marka má nýlegt viðtal við hann í The Sun.

Fyrri leikurinn fer fram í Dyflinni um næstu helgi og Evra segir allt sem sé grænt fái hann til þess að hugsa um Írland og að liðsfélagar hans séu ekki að hjálpa til með það.

„Mér finnst eins og ákveðnir aðilar í United séu viljandi að klæða sig upp í grænu eingöngu til þess að fara í taugarnar á mér. Þetta er farið að fara svo í taugarnar á mér að ég er hættur að drekka Sprite út af því að drykkurinn minnir mig á Írland.

Í raun í hvert sinn sem ég sé eitthvað grænt þá hugsa ég um Írland. Síðustu dagarnir hjá United hafa verið erfiðir og John O'Shea er alltaf eitthvað að reyna að hræða mig með því að segja að stemningin verði ótrúleg á Croke Park-leikvanginum.

Darren Fletcher, sem spilar fyrir Skotland, hefur líka tekið þátt í þessu og talað um að við ættum að eyða sumarfríinu saman þar sem Frakkland muni ekki komast á HM," segir Evra en bakvörðurinn viðurkennir að hann hafi hugsanlega átt þetta skilið þar sem hann hafi verið engu skárri þegar England komst ekki á lokakeppni Evrópumótsins 2008.

„Ég get ekki sagt að þetta komi mér á óvart að menn séu að djóka í mér því ég bauðst til þess að lána ensku strákunum í liðinu sjónvarpsfjarstýringuna mína til þess að þeir gætu skipt á milli leikjanna þegar þeir væru að horfa á lokakeppni EM 2008 í sjónvarpinu heima hjá sér."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×