Viðskipti innlent

Íslendingar vinna gegn svínaflensunni

Ef allt gengur að óskum hafa Sameinuðu þjóðirnar nú tekið í gagnið samskiptagátt TM Software gegn útbreiðslu svínaflensunnar í Mexíkó.
Ef allt gengur að óskum hafa Sameinuðu þjóðirnar nú tekið í gagnið samskiptagátt TM Software gegn útbreiðslu svínaflensunnar í Mexíkó. Mynd/VIlhelm

„Við erum á fullu að vinna í því að setja gáttina upp og fara að vinna gegn svínaflensunni í Mexíkó," segir Magnús Ingi Stefánsson, verkefnastjóri hjá TM Software, dótturfélagi Nýherja.

Magnús fer fyrir teymi sem vinnur að þróun og hönnun upplýsinga- og samskiptagáttar fyrir Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) sem notuð verður til að samræma starf björgunarsveita og lækna á hamfarasvæðum víða um heim.

Þetta er nýjung í starfi SÞ, sem hefur aldrei haft yfir viðlíka tóli að ráða.

Upphaflega var stefnt á að keyra búnaðinn upp um miðjan næsta mánuð. Þegar svína-flensan kom upp í Mexíkó um helgina var ákveðið að setja allt á fullt og koma búnaðinum í gagnið ytra sem fyrst.

Eins og staðan var um hádegisbil í gær átti TM Software að skila af sér öllu efni fyrir klukkan tíu um kvöldið. Tveir menn frá Microsoft ytra unnu að sleitulaust alla fyrrinótt að uppsetningu á vélbúnaði í Mexíkó til að taka samskiptagáttina í notkun. „Ef allt gengur vel ætti þetta að vera komið upp í fyrramálið [í dag]," sagði Magnús í gær.

Grunnur var lagður að gáttinni í kjölfar björgunarstarfa í Myanmar í maí í fyrra og þróaði TM Software búnaðinn áfram í fyrrahaust.

TM Software vinnur af málinu í samstarfi við Microsoft í Bandaríkjunum og SÞ en hún byggir á Microsoft-lausninni Sharepoint, sem heldur utan um skjöl, verkefni, ferla og ýmis konar upplýsingar.

Magnús segir Gísla Ólafsson, sem hefur unnið hjá Micro-soft um árabil, eiga mestu þakkir skildar vegna aðkomu Íslendinga að málinu. Hann vinnur hjá alþjóðadeild Microsoft og aðstoðar alþjóðastofnanir á borð við SÞ, Rauða krossinn, og Alþjóðabankann við að nýta tölvutækni betur í viðbrögðum við náttúruhamförum. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×