Innlent

Benni Ólsari ákærður fyrir Kompás-árás

Benjamín Þ. Þorgrímsson, sem oftast er kallaður Benni Olsari.
Benjamín Þ. Þorgrímsson, sem oftast er kallaður Benni Olsari.

Benjamín Þ. Þorgrímsson hefur verið ákærður fyrir að ráðast á Ragnar Ólaf Magnússon á bílastæði við Hafnarvogina við Hafnarfjarðarhöfn.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögmaður Benjamíns var fjarverandi við þingfestinguna. Benjamín tók sér því frest til að lýsa yfir afstöðu til ákærunnar.

Samkvæmt ákæru sparkaði Benjamín í hann, tók hann hálstaki og þrýsti honum niður til jarðar, þar sem hann sparkaði nokkrum sinnum í höfuð Ragnars þar sem hann lá í jörðinni. Þá hafi hann kýlt Ragnar í andlit auk þess að kýla hann í líkama með þeim afleiðingum að Ragnar hlaut heilahristing og ýmis önnur meiðsl. Töluvert var fjallað um málið í haust, enda var árásin tekinn upp á myndband og sýnd í sjónvarpsþættinum Kompási.

Þá var Benjamín jafnframt ákærður fyrir að ráðast á 35 ára gamlan karlmann 3. júlí í fyrra og kýla hann í andlit og í hægri vanga þar sem karlmaðurinn stóð við barinn á Nordica hótelinu. Sá sem fyrir árásinni varð hlaut heilahristing, bólgur og eymsli í andliti.

Þetta er í annað skipti sem ákært er í máli Benjamíns vegna árásarinnar á Ragnar Magnússon. Ágallar voru á málsmeðferð þegar ákært var í fyrra skiptið því gefnar voru út tvær ákærur.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×