Handbolti

Vilhelm Gauti: Aldrei spurning eftir að við smullum í gang í vörninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
HK-ingurinn Vilhelm Gauti Bergsveinsson gefur ekkert eftir í vörninni.
HK-ingurinn Vilhelm Gauti Bergsveinsson gefur ekkert eftir í vörninni. Mynd/Vilhelm
Vilhelm Gauti Bergsveinsson átti mjög flottan leik í HK-vörninni í sigrinum á Gróttu í kvöld og auk þess að verja sex skot í vörninni þá skoraði hann þrjú lagleg mörk þegar HK-ingar keyrðu yfir Seltirninga í seinni hálfleik.

„Við vorum lengi í gang varnarlega. Eftir að við smullum í gang í vörninni þá held ég að þetta hafi aldrei verið spurning. Sóknarleikurinn var agaður og skynsamur og við stjórnuðum þessu eftir okkar höfði. Við einbeittum okkur í að spila handbolta í stað þess að tuða en Gróttuliðið datt svolítið í þann pakka þegar þeir lentu undir. Þetta var okkar dagur og ég er mjög ánægður með þetta," sagði Vilhelm.

HK-vörnin var í mjög góðum gír þar sem Vilhelm Gauti og Bjarki Már Gunnarsson hleyptu fáu í gegn og flest allt sem slapp framhjá þeim varði Sveinbjörn í markinu.

„Það eru allir leikmenn í liðinu með hlutverk, sóknar- eða varnarlega. Okkar hlutverk er að vera svolítið geðbilaðir í vörninni, svolítið ýktir til þess að fá menn með okkur. Það er kannski ekki eins áberandi en það eru allir að skila sér varnarlega. Það eru allir með hnefana á lofti og skila sínu. Við vorum kannski meira áberandi núna en það eru allir að standa saman. Mér lýst bara vel á þetta," sagði Vilhelm.

HK-liðið lítur nú betur og betur út með hverjum leiknum.

„Við duttum í gang og yfirspiluðum þá. Við erum vissulega á gólu róli en við þurfum að halda áfram að vinna í okkar leik. Við erum með ákveðna vinnu í gangi sem er innan liðsins. Hún er að skila okkur í stemmingu og í því að menn eru að leggja sig fram," sagði Vilhelm að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×