Hinn tvítugi Arnór Smárason er líklegur til þess að byrja einn uppi á topp gegn Hollandi á morgun, en framherjinn hefur tekið hröðum og miklum framförum síðan hann var fyrst kallaður inn í A-landsliðið fyrir vináttulandsleik gegn Wales fyrir rúmu ári síðan.
„Ég er svona aðeins farinn að venjast því að vera með landsliðinu og þekki nú strákana betur og svona þannig að þetta er bara fínt," segir Arnór hvergi banginn.
Arnór leikur með Heerenveen í Hollandi og hlakkar því augljóslega mikið til að mæta Hollendingum á Laugardalsvelli á morgun. Arnór kom inná sem varamaður á lokamínútunum í fyrri leik liðanna ytra síðasta haust en vonast til þess að fá að spila meira á morgun.
„Ég er náttúrulega búinn að búa í Hollandi í einhver fimm ár þannig að það er vissulega mikil tilhlökkun að mæta þessum köllum. Hollendingar eru þekktir fyrir að vera svona dálítið grobbnir og við skulum vona að það vinni á móti þeim á morgun. Þetta verður annars flottur leikur held ég. Það væri líka gaman að fá að spila meira núna heldur en í Rotterdam. Það er annars undir mér komið að sýna mig og sanna fyrir landsliðsþjálfaranum og það er það sem ég ætla að gera," segir Arnór ákveðinn.