Fótbolti

Ferguson: 1-0 er nóg

Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að hann yrði hæstánægður ef hans menn næðu að leggja Arsenal að velli 1-0 á Old Trafford í fyrri leiknum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld.

Ferguson lýsir einvígi liðanna sem fullkomnu undanúrslitaeinvígi í Meistaradeildinni en ítrekar að mikilvægt sé fyrir hans menn að halda hreinu á heimavelli í fyrri leiknum.

United og Arsenal hafa mæst aðeins einu sinni á leiktíðinni og þar hafði Arsenal betur 2-1 á heimavelli.

"Við verðum að vinna og sleppa við að fá á okkur mark. Ég yrði hæstánægður með að vinna 1-0 og fara með það veganesti á Emirates," sagði Ferguson á blaðamannafundi í dag.

Hann hefur nú endurheimt flesta sína menn úr meiðslum, nema hvað Gary Neville verður ekki með annað kvöld eftir að hafa meiðst um daginn.

"Allir mættu á æfingu í dag nema Gary Neville og það eru góð tíðindi þegar maður er að fara að spila undanúrslitaleik í Meistaradeildinni. John O´Shea kom inn sem varamaður um helgina og hann er heill. Nú er bara að velja liðið og ég mun glíma við það næsta sólarhringinn," sagði Ferguson.

Hann reiknar að sjálfssögðu með hörkueinvígi milli þessara hörðu keppinauta. "Úrslitin í þessu einvígi ráðast ekki á morgun - svo mikið er víst. Það verður mikið eftir í síðari leiknum. Mér sýnist þetta ætla að verða hið fullkomna undanúrslitaeinvígi þegar maður lítur á leikmennina sem taka þátt í þessum leikjum," sagði Skotinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×