Fótbolti

Mourinho í vandræðum - báðir miðverðir Inter meiddust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Materazzi gengur hér svekktur af leikvelli.
Materazzi gengur hér svekktur af leikvelli. Mynd/GettyImages

Ítalska liðið Internazionale varð fyrir áfalli um helgina þegar báðir miðverðir liðsins, Marco Materazzi og Nicolás Burdisso, meiddust í 2-0 sigri liðsins á Genoa. Liðið mætir Manchester United í Meistaradeildinni á miðvikudaginn.

Hinn 35 ára gamli Materazzi reif vöðva í vinstra læri og var skipt útaf strax á 16. mínútu. Í stað hans kom Iván Córdoba.

Hinn 27 ára gamli Burdisso meiddist einnig í fyrri hálfleik og eru meiðsli hans enn alvarlegri. Það var ekki nóg með að Burdisso meiddist á læri eins og Materazzi þá meiddist hann einnig á hné.

Það er búist við að báðir leikmenn verði frá keppni í nokkrar vikur

Jose Mourinho, þjálfari Inter, þarf því að finna nýja miðverði fyrir seinni leikinn á móti Manchester United í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Inter gerði 0-0 jafntefli á heimavelli en seinni leikurinn er síðan á Old Trafford á miðvikudaginn.

Mourinho fékk þó ekki bara slæmar fréttir því allt lítur út fyrir að varnarmennirnir Cristian Chivu og Walter Samuel verði búnir að ná sér af sínum meiðslum og geti því spilað gegn Man. United. Þeir taka væntanlega stöður þeirra Materazzi og Burdisso.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×