Enski boltinn

Fabregas: Það var rétt hjá Wenger að setja mig inn á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas fagnar fyrra marki sínu á móti Aston Villa.
Cesc Fabregas fagnar fyrra marki sínu á móti Aston Villa. Mynd/AFP
Cesc Fabregas meiddist aftan í læri um leið og hann skoraði annað mark sitt á 24 mínútum eftir að hafa komið inn á sem varmaður í 3-0 sigri á Aston Villa um síðustu helgi. Hann sér ekkert eftir því að hafa komið inn á þrátt fyrir að vera ekki búinn að ná sér hundrað prósent.

„Ég tek þessum meiðslum bara með jafnaðargleði. Auðvitað mun ég ekki getað spilað á næstunni en ég vonast til að geta komið til baka og farið að hjálpa liðinu aftur sem fyrst," segir Fabregas. „Ég meiddi mig við að skora seinna markið. Ég fann fyrir kipp í lærinu um leið og ég hljóp á eftir sendingunni frá Theo Walcot," sagði Fabregas.

„Ég hafi ekki spilað í nokkra leiki og ég og stjórinn sættumst á það að ég kæmi inn á í stuttan tíma. Ég var ánægður með að geta hjálpað til og ég kom inn á völlinn til þess að hafa áhrif á gang leiksins. Það var rétt hjá Wenger að setja mig inn á því ég náði að breyta leiknum. Núna vil ég gera allt til þess að sleppa við meiðsli á árinu 2010 og reyna að hjálpa Arsenal að vinna titilinn," sagði Fabregas.

Cesc Fabregas verður ekki með á móti Portsmouth í kvöld og mun líklega einnig missa að fjórum leikjum tilbótar á móti West Ham (bikar), Bolton Wanderers (tveir leikir) og Everton. Leikur Portsmouth og Arsenel hefst klukkan 19.45 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×