Viðskipti erlent

Vogunarsjóður græddi 46 milljarða kr. á að skortselja RBS

Vogunarsjóðurinn Paulson & Co, einn sá stærsti í heiminum, græddi 270 milljón pund eða um 46 milljarða kr. á því að skortselja hluti í Royal Bank of Scotland (RBS).

Í frétt um málið í Financial Times segir að vogunarsjóðurinn hafi veðjað á að bréf í RBS myndu lækka síðustu fjóra mánuði og á föstudag kom sjóðurinn sér út úr skortstöðum sínum með fyrrgreindum hagnaði.

Með skortstöðu er átt við að hlutabréf eru fengin að láni í einhvern tíma en seld um leið. Viðkomandi veðjar svo á að verð þeirra hafi lækkað þegar hann á að skila þeim til baka.

Þessi skortsala er líkleg til að vekja upp að nýju raddir um að banna eigi skortsölu með öllu. Tímabundið bann við sölunni var í Bretlandi fyrr í vetur.

Paulson & Co er í eigu milljarðamæringsins John Paulson og er með höfuðstöðvar í New York. Paulson vildi ekki tjá sig um málið er Financial Times leitaði til hans.

Fram kemur í fréttinni að Paulson & Co hafi einnig grætt myndarlega á að skortselja Barclays og Lloyds TSB.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×