Fótbolti

Félag í Makedóníu kært fyrir veðmálasvindl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Knattspyrnusamband Evrópu hefur ákveðið að kæra félag frá Makedóníu, FK Podeba, fyrir að reyna að hagræða úrslitum leiks í forkeppni Meistaradeildarinnar árið 2004.

Umræddur leikur fór fram þann 13. júlí árið 2004 í Skopje er heimamenn í Podeba töpuðu 3-1 fyrir Pyunik frá Armeníu.

Pyunik skoraði þrívegis í fyrri hálfleik en Podeba minnkaði muninn undir lok leiksins.

UEFA hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að forseti félagsins og einn leikmaður sé grunaður um að hafa reynt að hagræða úrslitum leiksins í hagnaðarskyni fyrir sig og ónefndan þriðja aðila.

Í tilkyninngunni kemur einnig fram að þetta hafi komið á yfirborðið eftir að veðmálafyrirtæki kom auga á ýmis óeðlileg veðmál í tengslum við þennan leik auk þess sem að vitni hafi komið fram í málinu.

Málið verður tekið fyrir hjá sambandinu þann 17. apríl næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×