Fótbolti

Figo leggur skóna á hilluna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Luis Figo.
Luis Figo. Nordic Photos/Getty Images

Portúgalinn Luis Figo greindi frá því í dag að hann hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna. Tíðindin koma í kjölfar þess að félag hans, Inter, tryggði sér ítalska meistaratitilinn í gærkvöldi.

„Þetta er í fyrsta skiptið sem ég fagna án þess að spila. Það er ekki til betri leið til þess að enda ferilinn," sagði hinn 36 ára gamli Portúgali.

Figo ætlaði að hætta í fyrra eftir að hafa lent upp á kant við Roberto Mancini, þáverandi þjálfara Inter, en Jose Mourinho fékk hann til þess að halda áfram.

Figo hefur verið orðaður við lið í Bandaríkjunum en hann segir afar ólíklegt að hann dragi skóna fram úr hillunni til þess að spila þar.

Figo hóf feril sinn hjá Sporting Lissabon. Fór þaðan til Barcelona og var seldur þaðan til erkifjendanna í Real Madrid fyrir metupphæð á þeim tíma.

Hann fór síðan til Inter árið 2005. Figo var valinn besti knattspyrnumaður heims árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×