Innlent

Nýr togari til heimahafnar í Reykjavík

Kristján Már Unnarsson. skrifar
Nýsmíðaður togari, Helga RE, kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Reykjavík í dag. Slíkt gerðist síðast í höfuðborginni um síðustu aldamót. Útgerðarmaðurinn, Ármann Ármannsson, var svo heppinn að tryggja sér gjaldeyri fyrir kaupunum þegar dollaragengið var helmingi lægra.

Helga RE 49, sú fimmta í röðinni sem ber þetta nafn, lagðist að bryggju fánum prýdd upp úr hádegi eftir 56 daga ferð frá Taívan þar sem skipið var smíðað. Það er 29 metrar að lengd og 360 brúttótonn. Markús Alexandersson var skipstjóri í heimsiglingunni.

Mönnum telst til að síðast hafi Reykvíkingar fengið nýsmíðaðan togara þegar síðasta Helgan kom árið 2001, en svona atvinnutæki kallar á fjölda starfa. Ármann áætlar að útgerðin þýði 15-20 störf, bara skipverjar um borð.

Spurður hvort hann eigi nægan kvóta til að standa undir rekstrinum kveðst Ármann aldrei eiga nægan kvóta. Það sé rosalegt hvernig búið sé að skerða aflaheimildir, sér finnist það alveg út í hött, sérstaklega með ýsuna. Engu að síður er Ármann bjartsýnn á reksturinn.

Það gerir gæfumuninn að dollaragengið var 62 þegar hann samdi um smíðina fyrir þremur árum. Nú sé það í kringum 130 krónur. Kveðst Ármann hafa haft vit á því að kaupa sér dollara þá, og svo smámsaman mjatlað inn á kaupverðið eftir því sem skipið byggðist. Hann segir að í dag myndi skipið kosta milli 800 og 900 milljónir króna. Hvort þetta þýði að hann hafi fengið skipið á helmingi lægra verði, svarar Ármann: "Eitthvað svoleiðis."

Ármann fylgdist með komu Helgunnar úr bíl sínum á hafnarbakkanum í dag og var ekki búinn að skoða skipið þegar Stöð 2 ræddi við hann um klukkustund síðar. Slys í Borgarfirði fyrir tveimur árum breytti tilverunni og hann lamaðist.

"Lífið er svona. Þetta bara skeði og maður verður að sætta sig við það," segir Ármann, og kveðst auðvitað ætla að skoða skipið.

"Einhverntímann kemur að því að ég verði hífður um borð. Það hlýtur að vera," segir Ármann og brosir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×