Innlent

Skoða framtíðarskipulag kirkjugarða

Hjalti Zóphóníasson Skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu segir að þangað berist fimm til tíu beiðnir á ári um að flytja látið fólk í nýjar grafir.
Hjalti Zóphóníasson Skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu segir að þangað berist fimm til tíu beiðnir á ári um að flytja látið fólk í nýjar grafir.

Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri kirkjumáladeildar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, segir að rætt verði við forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkur vegna skipulagningar á kirkjugörðum í framtíðinni.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær og síðastliðinn föstudag eru sumir aðstandendur óánægðir með að látnir ættingjar þeirra hvíli í gröf þar sem legsteini eru ætlaður staður til fóta. Í blaðinu í gær var haft eftir Þórsteini Ragnarssyni, forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkur, að skipulag garðanna hér væri í samræmi við garða í borgum Evrópu.

„Við tölum ábyggilega við Þórstein í framhaldinu með skipulagningu nýrra garða í huga,“ segir Hjalti.

Sumir aðstandendur hafa íhugað að óska eftir leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að færa kistur í nýjar grafir svo legsteinar geti verið við höfðalag.

Hjalti segir að á ári hverju hafi borist fimm til tíu beiðnir um að fá að færa kistur. Frá því hann hóf störf í ráðuneytinu 1994 hafi engin beiðni tengst því hvernig grafirnar snúi. Heimild sé gefin eftir umsögn frá héraðslækni og biskupi Íslands eða yfirmanni viðkomandi trúarhóps. Oftast sé um að ræða sameiningu ættingja.

„Þá hafa þau kannski verið skilin, foreldrarnir, og börnin vilja endilega að þau hvíli saman og það fellst einhver annar á það,“ nefnir Hjalti sem dæmi. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×