Viðskipti innlent

Bankarnir afskrifa sex þúsund milljarða

Líklegt er að nýju bankarnir, Íslandsbanki, Kaupþing og Landsbankinn, afskrifi rúm fjörutíu prósent skulda sinna eftir efnahagshrunið í fyrrahaust. Um þrjátíu prósent þurfa uppstokkunar við en afgangurinn er traustur, samkvæmt gæðamati breska fjármálafyrirtækisins Oliver Wyman á lánasöfnum bankanna.

Áætlaðar heildarskuldir bankanna nema fjórtán þúsund milljörðum króna. Tapið lendir að nær öllu leyti á herðum erlendra kröfuhafa, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Afskriftirnar munu hafa slæm skammtímaáhrif fyrir Ísland á erlendum vettvangi en fjara út í tímans rás, að mati eins viðmælenda Fréttablaðsins.

Oliver Wyman hefur stýrt mati á nýju bönkunum fyrir Fjármálaeftirlitið. Fyrirtækið vann einnig með Mats Johansson, sænskum bankasérfræðingi sem forsætisráðuneytið skipaði, við undirbúning stofnunar sérstakra umsýslufélaga fyrir svokallaðar „eitraðar eignir" bankanna.

Fjármálaeftirlitið réð endurskoðunarfyrirtækið Deloitte og fjármálafyrirtækið Oliver Wyman til að vinna mat á nýju bönkunum. Eftir því sem næst verður komist stendur sú vinna enn yfir, en Fjármálaeftirlitið greindi frá því í vikunni að Deloitte muni birta mat sitt á stöðu þeirra í lok mars. Skýrslu Oliver Wyman um framkvæmd verðmatsins á svo að kynna eigi síðar en 15. apríl. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×