Skoðun

Af lýðræðishalla ESB

Ríki, til dæmis Íslandi, er stjórnað af ríkisstjórn sem samanstendur af lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem valdir eru í beinum kosningum til Alþingis. Kjörnir þingmenn verða ráðherrar og mynda framkvæmdavald. Á löggjafarþinginu sitja svo aðrir þingmenn kosnir í sömu kosningum. Ráðherrar og ríkisstjórn (framkvæmdavald) njóta þjónustu embættismanna í ráðuneytum viðkomandi ráðherra. Þeir embættis­menn vinna fyrir hönd og í umboði ráðherra og eru gjarnan ráðnir af mörgum fyrirrennara hans. Þeir taka ákvarðanir í umboði ráðherrans sem t.a.m. binda einstaklinga og lögaðila. Þeir undirbúa reglugerðir sem grundvallast á lögum samþykktum af Alþingi sem ráðherra samþykkir og gefur út. Embættismönnum er unnt að víkja frá störfum.

Innan ESB er löggjafarvaldið sameiginlega í höndum ráðherraráðsins sem samanstendur af ráðherrum aðildarríkja ESB sem sitja í ríkisstjórnum þeirra og myndaðar hafa verið á grundvelli lýðræðisskipulags hvers aðildarríkis sem byggist á stjórnarskrám þeirra og Evrópuþingsins sem kosið er beinni kosningu í hverju og einu aðildarríki á fimm ára fresti. Framkvæmdavald ESB, framkvæmdastjórnin, („ríkisstjórn“) sem samanstendur af framkvæmdastjórum („ráðherrar“) er valið af aðildarríkjunum, þ.e ríkisstjórnum sem þegnar viðkomandi ríkis hafa kosið í lýðræðislegum kosningum og Evrópuþinginu (sem kosið er beinni kosningu af íbúum aðildarríkjanna). Framkvæmdastjórninni („ríkis­stjórninni“) til halds og trausts eru embættismenn sem ráðnir hafa verið til starfa til að vinna fyrir framkvæmdavald ESB; framkvæmdastjórnina. Þeir undirbúa ákvarðanir framkvæmdastjóranna og framkvæmdastjórnarinnar og þær reglugerðir/tilskipanir sem framkvæmdastjórninni hefur verið heimilað að gefa út með samþykktum ráðherraráðsins og Evrópuþingsins (löggjafarvaldi ESB). Embættismönnum er unnt að víkja frá störfum.

Getur svo einhver sagt okkur hvar hið ólýðræðislega skipulag ESB er í samanburði við hið fullkomna lýðræðislega íslenska stjórnskipulag? Getur líka einhver útskýrt fyrir okkur dauðlegum mönnum af hverju hver samtökin á fætur öðrum verja fjármagni sínu í að flytja inn Norðmenn til að útskýra fyrir Íslendingum hversu hrikalega vont þetta ESB er? Hefur engum dottið í hug að flytja inn fólk frá ESB-ríkjum sem þekkir þetta af eigin raun?



Höfundur er formaður Evrópusamtakanna.




Skoðun

Sjá meira


×