Sport

Marquez lítil hindrun fyrir hinn taplausa Mayweather Jr

Ómar Þorgeirsson skrifar
Hinn taplausi Floyd Mayweather sýndi að hann hafði engu gleymt í endurkomu bardaga sínum í nótt.
Hinn taplausi Floyd Mayweather sýndi að hann hafði engu gleymt í endurkomu bardaga sínum í nótt. Nordic photos/AFP

Það var ekki að sjá á Bandaríkjamanninum Floyd Mayweather Jr að hann væri að stíga í fyrsta skipti í hringinn í tuttugu og einn mánuð þegar hann vann Mexíkóbúann Juan Manuel Marquez á stigum í Las Vegas í Bandaríkjunum.

Allir þrír dómararnir dæmdu Mayweather Jr öruggan sigur en það var ekki barist um neitt meistarabelti að þessu sinni þar sem Mayweather Jr var að snúa aftur eftir að hafa hætt og Marquez var að færa sig upp um þyngdarflokk.

Hinn 32 ára gamli Mayweather var með yfirburði í öllum tólf lotunum og sló hinn 36 ára gamla Marquez í gólfið strax í annarri lotu með vinstri krók.

Marquez er ekki þekktur fyrir að gefast upp en hann átti ekkert í Mayweather sem er enn taplaus vann þar með sinn fertugasta sigur á atvinnumannaferlinum.

„Hann er algjör nagli því ég hitti hann með mjög góðu höggi þegar hann fór í gólfið en hann stóð upp og hélt áfram. Hann er mjög harður af sér," sagði Mayweather Jr um Marquez eftir bardagann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×