„Sigmundur hefur gert grein fyrir þessu með fullnægjandi hætti og það er ekkert meira um það að segja," segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, þegar Vísir náði tali af honum.
Hann segir að málið verði ekki rætt sérstaklega inn á fundi þingflokksins en Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur játað að hafa drukkið tvö vínglös á golfmóti MP bankans áður en hann hélt mikla eldræðu á þingi síðastliðið fimmtudagskvöld.
Að mati þingflokksformannsins hefur Sigmundur gert nægjanlega grein fyrir málinu. Hann muni ekki tjá sig að öðru leitinu til um málið.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur hinsvegar óskað eftir því að taka málið upp á fundi forsætisnefndar sem verður haldin á morgun.
Í viðtali við RÚV sagði hún að framkoma Sigmundar hefði verið aðfinnsluverð. Sigmundur sagði ennfremur að hann hefði ekki verið ölvaður þegar RÚV ræddi við hann. Nú hefur hann játað að hafa hinsvegar drukkið 2 vínglös, hann hafi þó ekki verið drukkinn.