Innlent

Trúnaðarmál: Ákvæði uppgjörssamnings Icesave opinberuð

Sigríður Mogensen skrifar

Íslendingar geta einungis leitað til breskra dómstóla komi upp ágreiningur í tengslum Icesave samkomulagið. Bretar geta hins vegar leitað til hvaða dómsstóls sem er. Þetta kemur fram í uppgjörssamningi milli íslenska og breska innistæðutryggingasjóðsins.

Í lánasamningnum milli Íslands og Bretlands vegna Icesave er ítrekað vitnað í samning, sem nefndur er uppgjörssamningur.

Fréttastofa hefur þennan uppgjörssamning nú undir höndum, en hann var ekki birtur sem fylgigagn með Icesave skjölunum og er stimplaður sem trúnaðarmál.

Uppgjörssamningurinn svokallaði er milli Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og breska tryggingasjóðsins. Í samningnum er meðal annars ákvæði um að eignum úr þrotabúi Landsbankans skuli úthlutað milli Íslendinga og Breta hlutfallslega. Fréttastofa hefur áður greint frá þessu, en þetta þýðir að Bretar og Hollendingar fá tæpan helming af eignum Landsbankans eftir því sem þær innheimtast.

Í grein 13.2 í samningnum segir að allan ágreining sem kunni að rísa í tengslum við tilurð hans eða gildi skuli útkljá fyrir breskum dómstólum. Í grein 13.3 segir að aðilar samningsins, það er að segja íslenski og breski innistæðutryggingasjóðirnir, samþykki að enskir dómsstólar séu mest viðeigandi og hentugastir til að leysa úr ágreiningsmálum. Þar segir einnig að aðilar megi ekki deila um það.

Í grein 13.4 er hnykkt á þessum ákvæðum. Þar segir að greinarnar tvær á undan séu einungis í hag breska innistæðutryggingasjóðsins. Breska sjóðnum sé heimilt að beina ágreiningsmálum til hvaða dómsstóls sem er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×