Viðskipti erlent

AGS hefur í hótunum við sænska banka

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur nú í hótunum við sænska banka sem starfa í Eystrasaltsríkjunum. AGS hefur komið þeim skilaboðum á framfæri í nýrri skýrslu að ef sænsku bankarnir standi ekki við lánaskuldbindingar sínar í þessum ríkjum muni sjóðurinn ekki standa gegn því að gengi gjaldmiðla þessara ríkja verði fellt.

Í frétt um málið á Dagens Industri segir að það séu bankarnir Swedbank og SEB sem eru með stærstu útlánin í þessum ríkjum, það er Litháen, Lettlandi og Eistlandi. Það muni kosta bankana auga og tönn að draga sig út úr lánasamningum sínum.

„Við munum fylgjast náið með því að bankarnir standi við skuldbindingar sínar," segir í skýrslu AGS.

Dagens Industri segir að fari svo að AGS ákveði að styðja gengisfellingar á gjaldmiðlum fyrrgreindra ríkja muni það hafa í för með sér að sænsku bankarnir verða að afskrifa mikið af útlánasöfnum sínum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×