Innlent

Kynna nýjan bjór í Kringlunni í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjórinn verður kynntur til leiks í Kringlunni í dag.
Bjórinn verður kynntur til leiks í Kringlunni í dag.

Bjórframleiðandinn nIcebrew hefur samið við Bruggsmiðjuna, sem framleiðir hina sívinsælu bjórtegund Kalda, um að Bruggsmiðjan sjái um að markaðssetja á íslenskum markaði tvær bjórtegundir sem nIcebrew hefur verið með í þróun að undanförnu. Um er að ræða Icelandic Poverty Ale og Three Headed Monster Ale. „Já þetta eru skemmtileg tíðindi og til að fagna þessu og kynna okkur á Íslandi munum við vera með bás í ÁTVR í Kringlunni í dag þar sem við munum bjóða upp á smakk af bjórnum okkar," segir Ragnar Freyr Rúnarsson, framkvæmdastjóri nIcebrew í samtali við fréttastofu.

Ragnar Freyr segist i samtali við fréttastofu lengi hafa verið áhugamaður um bjórmenningu. Hins vegar sé stutt síðan að hann hafi ákveðið að setja á fót nIcebrew, sem er örlítið brugghús. Ævintýrið hafi byrjað í eldhúsinu hjá honum í Danmörku. „Það er talað um microbrewery þegar menn ræða um lítil brugghús en nIcebrew myndi líklega flokkast sem picobrewery og þá er ég ekki að reyna vera dónalegur. Þó brugghúsið sé lítið eru hins vegar áætlanir um stóra og mikla bjóra," segir Ragnar Freyr í samtali við fréttastofu.

Hægt verður að smakka Icelandic Poverty Ale og Three Headed Monster Ale á sérstakri kynningu í verslun ÁTVR í Kringlunni klukkan tvö í dag. Enn fremur munu verða gefnir hundrað kassar með blöndu af nIcebrew framleiðslunni og Kalda.

--------

Athugasemd skrifuð 2. apríl 2009.

Ekki var fótur fyrir þeim upplýsingum sem komu fram í fréttinni sem skrifuð var þann 1. apríl. Um aprílgabb var að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×