Innlent

„Loga ekki öll ljós í kolli háttvirts þingmanns"

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar.

„Það er nokkuð ljóst að það loga ekki öll ljós í kolli háttvirts þingmanns ef hann getur ekki munað tvær-þrjár spurningar sem beint er til hans hér úr ræðustól," sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttur, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í þingsal rétt fyrir hálftólf í gærkvöld.

Orðum sínum beindi hún til þingmanns Samfylkingar, Sigmundar Ernis Rúnarsonar, sem fullyrti að spurningar Ragnheiðar væru svo stórkostlegar að hann gæti ekki munað þær allar. Það var áður en hann yfirgaf ræðustól með orðin „Ég ætla ekki að taka þátt í þessari umræðu meira" á vörunum eftir að hrópað hafði verið að honum úr sal að hann hefði starfað fyrir auðmenn.

Spurningarnar sem Ragnheiður hafði lagt fyrir Sigmund voru:

Hvert var hlutverk hans í fjárlaganefnd, hvað lagði hann þar til, hver er skoðun hans á orðum Jóns Sigurðssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, þegar hann sagði að bankakerfið væri heilbrigt í maí á síðasta ári og hver er skoðun hans á orðum fyrrum formanns Samfylkingarinnar þegar hún sagði enga kreppu á Íslandi skömmu fyrir hrun.

Þá spurði hún einnig hvað hann hefði átt við þegar hann fullyrti að hann væri laus undan oki auðmanna áður en hann fór í framboð.

Þegar Ragnheiður gekk á eftir svörum við spurningunum sagðist Sigmundur ekki ætla að svara fyrir Jón Sigurðsson eða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, enda hefði hann ekki verið genginn í Samfylkinguna þegar orð þeirra féllu.

Upphaf sennunnar má rekja til ræðu Sigmundar í þinginu fyrr um kvöldið þar sem hann sagði Icesave málið minnisvarða um mistök valdsins.

Umræðurnar má sjá hér, en þær hefjast með ræðu Sigmundar klukkan 22:55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×