Fótbolti

Grunur um að úrslitum 200 leikja í Evrópu hafi verið hagrætt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Peter Limacher ræðir við fréttamenn í dag.
Peter Limacher ræðir við fréttamenn í dag. Nordic Photos / AFP

Þýsk yfirvöld hafa nú handtekið sautján manns í tengslum við risavaxna rannsókn sína um að úrslitum 200 knattspyrnuleikja hafi verið hagrætt vegna veðmálastarfssemi.

Ef grunurinn reynist á rökum reistur er um að ræða einhverja alstærstu svikamyllu sem hefur átt sér stað í knattspyrnusögunni. Peter Limacher, fulltrúi Knattspyrnusambands Evrópu, sagði þetta langstærsta málið af þessu tagi sem hefur komið upp í Evrópu.

Að minnsta kosti þrír leikir sem verið er að rannsaka voru í Meistaradeild Evrópu og tólf í Evrópudeildinni. Þá er einnig verið að skoða leiki sem fóru fram í Þýskalandi, Belgíu, Sviss, Króatíu, Slóveníu, Tyrklandi, Ungverjalandi, Bosníu og Austurríki. Allir leikirnir sem hér um ræðir munu hafa farið fram á þessu ári.

Lögreglan framkvæmdi um 50 húsleitir í Þýskalandi, Bretlandi, Sviss og Austurríki í gær, handtók sautján manns og gerði reiðufé og ýmsar eignir upptækar.

Knattspyrnusamband Evrópu greindi frá því í september síðastliðnum að það myndi skoða 40 leiki vegna gruns um að úrslitum þeirra hafi verið hagrætt en þeir leikir eru einnig hluti af rannsókninni í Þýskalandi.

Saksóknarar í Þýskalandi telja að þeir sem hafi staðið fyrir starfsseminni hafi mútað leikmönnum, þjálfurum, dómurum og starfsmönnum leikja til að hagræða úrslitum leikja og svo veðjað samkvæmt því.

Þýsk yfirvöld njóta stuðnings Knattspyrnusambands Evrópu í rannsókninni.

„Okkur í Knattspyrnusambandi Evrópu kemur gríðarlega mikið á óvart hversu viðamikil þessi starfssemi hefur verið," sagði Limacher. „En að sama skapi erum við ánægðir með að þetta hafi þó uppgötvast."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×