Innlent

Ráðuneytum fækkað um eitt og uppstokkun á öðrum

Telma Tómasson skrifar

Ráðuneytum verður fækkað um eitt, samkvæmt tillögum starfshóps um breytingar á stjórnarráði, og tilfærslur á verkefnum verða umtalsverðar.

Starfshópur um breytingar á stjórnskipaninni hefur síðustu vikur verið að störfum í tengslum við stjórnarmyndunarviðræðurnar. Skilaði hópurinn tillögum til formanna Samfylkingar og Vinstri grænna sem innlegg við gerð stjórnarsáttmálans, sem væntanlega verður gerður opinber um helgina.

Tillögurnar ganga út á leiðir sem mælt er með að farið verði við uppstokkun á ráðuneytunum, með meiri skilvirkni að markmiði. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þar í fyrsta lagi hugmyndir um atvinnumálaráðuneyti - en undir það myndu heyra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin og stærstur hluti iðnaðarráðuneytis. Við þá breytingu myndi fækka um eitt ráðuneyti - færu þau þá úr tólf, sem þau eru nú, í ellefu.

Í öðru lagi yrði sérstöku efnahags- og viðskiptaráðuneyti komið á fót, en þangað yrðu færðar þær deildir fjármála- og forsætisráðuneyta sem komið hafa að efnahagsmálum og sameinaðar viðskiptaráðuneytinu. Engin fækkun ráðuneyta þar, aðeins tilfærsla verkefna. Og í þriðja lagi er öflugt umhverfis- og auðlindaráðuneyti á teikniborðinu.

Þangað færu auðlindahlutar sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytanna, sem myndu koma til viðbótar við núverandi umhverfisráðuneyti. Samkvæmt heimildum fréttastofu er þó ólíklegt að þetta komi til framkvæmda strax heldur muni breytingar verða gerðar í áföngum, samhliða fjárlagavinnu og taka gildi í fyrsta lagi um næstu áramót.

Einnig skal taka fram að til að þetta nái fram að ganga þarf að breyta reglugerð um stjórnarráð, en hún hefur ígildi laga og þarf samþykkt Alþingis. Heimildir fréttastofu herma að þarna verði þó ekki staðar numið heldur sé stefnt að frekari hagræðingu og að til standi að fækka um eitt ráðuneyti enn í framtíðinni, þannig að þau yrðu tíu þegar uppi væri staðið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×