Enski boltinn

Mourinho: Fann ástina frá stuðningsmönnum Chelsea

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mourinho gefur eiginhandaráritanir fyrir leikinn í gær.
Mourinho gefur eiginhandaráritanir fyrir leikinn í gær. Nordic Photos/Getty Images

Jose Mourinho sagði að það hefði verið afar gaman að koma aftur á Stamford Bridge í gær og hann ítrekaði við komuna að hann hefði enn hug á að snúa í enska boltann á ný. Hann sagði þó ekki koma til greina að yfirgefa Inter á þessari leiktíð.

Mourinho sá Chelsea merja sigur á Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær og ná þar með fimm stiga forskoti á toppnum á ný.

„Ég vil koma aftur í enska boltann. Ég er ekki týpan sem heldur slíku leyndu. Ég fer ekkert leynt að ég elska að vera hérna. Ég elska það," sagði Mourinho við The Sun.

„Ég vann tvo titla hér á þrem árum og alla aðra bikara líka. Mér gekk vel hér og því er eðlilegt að félög hér í landi vilji fá mig. Ég vann tvo meistaratitla með Porto, tvo með Chelsea og nú vil ég bæta öðrum titlinum við hjá Inter. Það væri sérstakt," sagði sá sérstaki.

„Ég trúi því að ég muni snúa í enska boltann á ný. Ég yfirgef samt ekkert lið á miðri leiktíð þannig að ekki kemur til greina að fara strax frá Inter."

Mourinho fékk hlýjar móttökur hjá stuðningsmönnum Chelsea. Það yljaði honum um hjartarætur.

„Ég fann ástina og það voru miklar tilfinningar í gangi enda var ég að koma á Stamford Bridge í fyrsta skipti síðan ég fór frá félaginu. Það var gott að koma aftur og ég hitti marga vini."

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×