Sport

Mayweather skýtur föstum skotum á Pacquiao

Ómar Þorgeirsson skrifar
Floyd Mayweather Jr.
Floyd Mayweather Jr. Nordic photos/AFP

Hinn ósigraði Floyd Mayweather Jr lagði sem kunnugt er hanskana á hilluna eftir yfirburðasigur gegn Ricky Hatton um WBC-veltivigtarbeltið í lok árs 2007 en Bandaríkjamaðurinn snýr brátt aftur í hringinn þegar hann mætir Juan Manuel Marquez frá Mexíkó í september.

Talað er um að bardaginn verði hálfgerð upphitun fyrir fyrirhugaðan risabardaga Mayweather og Manny „Pac-man" Pacquiao frá Filippseyjum. Hinn yfirlýsingarglaði Mayweather sér þetta þó í öðru ljósi og telur Marquez hættulegri andstæðing en Pacquiao.

„Í minni bók er Marquez mun betri en Pacquiao. Annars skiptir ekki máli hverjum ég mæti. Ég elti ekki andstæðinga, þeir elta mig. Stærsti bardaginn í hnefaleikum er ekki Mayweather á móti Marquez eða Mayweather á móti Pacquiao. Það er Mayweather á móti hverjum sem er.

Ég verð alla vega tilbúinn að mæta Marquez því hann er stríðsmaður frá Mexíkó og er verðugur andstæðingur. Við skulum svo sjá til hvort eitthvað verði af bardaga við Pacquiao en eins og staðan er núna þá vilja hann og hans menn fá alltof mikinn pening fyrir fyrirhugaða bardagann gegn mér," segir Mayweather.





Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×