Innlent

Tillögu Þorgerðar hafnað

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Mynd/GVA
Tillaga Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að stjórnarskrárfrumvarpið yrði sett aftur fyrir mikilvægari mál á dagskrá Alþingis var felld í dag. Þorgerður taldi brýnt að ræða frumvarp Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, um heimild til samninga um fyrirhugað álver í Helguvík. 31 þingmenn voru andsnúnir tillögu Þorgerðar en 20 greiddu atkvæði með henni. 12 voru fjarstaddir.

Í atkvæðagreiðslu um tillöguna gerðu nokkrir þingmenn grein fyrir atkvæði sínu. Sjálfstæðismenn sögðust vilja flýta fyrir því að mikilvægari mál en stjórnarskipunarfrumvarpið kæmist til umræðu og afgreiðslu í þinginu.

Karl V. Matthíasson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði mikilvægt að setja í stjórnarskrána ákvæði um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Hann bað þingmenn Sjálfstæðisflokksins um að hætta að syngja og lesa sömu ræðuna upp aftur og aftur. Karl sagði sjálfstæðismenn sýna Alþingi mikla óvirðingu með framgöngu sinni.

Kristján Möller, samgönguráðherra, sagði gott að þjóðin fengi nú að sjá vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins og benti á að þingmenn flokksins hafi ekki einu sinni mætt allir í atkvæðagreiðslu um tillögu Þorgerðar.

Að atkvæðagreiðslunni lokinni kvaðst Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, vonast til þess dagskrá þingins gengi fram með hefðbundnum hætti svo hægt væri að ná fram eðlilegri umfjöllun fyrir þriðju umræðu frumvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×