Handbolti

Umfjöllun: Baráttusigur FH gegn Val

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Mynd/Valli

Í dag mættust að Hlíðarenda Valur og FH í N1-deild karla í handknattleik. Fyrir leikinn sátu Valsmenn í öðru sæti deildarinnar en FH-ingar í því fjórða.

Það voru gestirnir sem sigruðu í dag, 20-23, í miklum baráttuleik.

Leikurinn fór rólega af stað. Bæði lið spiluðu frábæran varnarleik en það sárvantaði hugmyndir í sóknarleikinn báðum megin.

Hlynur Morthens var mjög traustur í markinu hjá Val og varði tíu bolta í fyrri hálfleik.

Gestirnir fylgdu heimamönnum hart á eftir allan fyrri hálfleikinn. Áður en flautað var til leikhlés náði hornamaður FH, Bjarni Fritzson, að skora og þar með tryggja gestunum forystu inn í leikhlé. Staðan í hálfleik, 9-10.

Í síðari hálfleik breyttist lítið og liðin fylgdust að allt til enda. Óhætt er að segja að mikil barátta, góður og vel skipulagður varnarleikur einkenndi leikinn að Hlíðarenda í dag.

FH-ingar náðu tveggja marka forskoti fyrsta skipti í leiknum þegar að fimm mínútur voru eftir af leiknum, staðan þá 17-19. Ólafur Gústafsson skoraði og Pálmar í maki gestanna varði gríðarlega mikilvægt skot.

Það var mikil spenna í lokin og erfitt að sjá hvort liðið færi úr leiknum með bæði stigin.

Það voru svo FH-ingar sem kláruðu leikinn, Ólafur Gústafsson skoraði frábært mark þegar um mínúta var eftir og kom gestunum í þriggja marka forskot. Heimamenn minnkuðu muninn en Bjarni Fritzson kláraði dæmið með lokamarkinu og baráttusigur FH-inga í höfn.

Valsliðið var ekki að spila vel í sókninni og vantaði að fá leikmenn eins og Fannar og Arnór til að taka meiri þátt í leiknum. Hlynur átti mjög góðan dag í markinu og varði sautján skot.

Gestirnir börðust allan leikinn og liðsheildin skóp sigurinn hjá þeim í dag. Pálmar Pétursson var traustur og varði vel á meðan vörnin stóð sína vakt allan leikinn.

Eftir leikinn í dag eru FH-ingar komnir við hlið Vals í öðru sæti deildarinnar. En lokatölur sem fyrr segir, 20-23, FH í vil.

 

Valur-FH 20-23 (9-10)



Mörk Vals (skot): Arnór Þór Gunnarsson 5 (7/1), Elvar Friðriksson 4 (11), Orri Freyr Gíslason 3 (3), Gunnar Ingi Jóhannsson 3 (6), Ernir Hrafn Arnarsson 3 (8), Ingvar Árnason 1 (3), Fannar Friðgeirsson 1 (5).

Varin skot: Hlynur Morthens 17 (40/3) 43%

Hraðaupphlaup: 2 (Gunnar Ingi, Arnór)


Fiskuð víti: 1 (Ernir)


Utan vallar: 6 mín.



Mörk FH (skot): Bjarni Fritzson 6/3 (6/3), Örn Ingi Bjarkason 5 (7), Ólafur Guðmundsson 4 (10), Ólafur Gústafsson 4 (11), Jón Heiðar Gunnarsson 3 (4), Ásbjörn Friðriksson 1 (4).

Varin skot: Pálmar Pétursson 13/1 (33/1) 39%.


Hraðaupphlaup: 3 (Örn Ingi 2, Ólafur Guðm.)


Fiskuð víti: 3 (Bjarki, Jón Heiðar, Ólafur Gústafs)


Utan vallar: 6 mín.


Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson, góðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×