Stjörnukylfingurinn Tiger Woods er fullur sjálfstrausts fyrir US Masters mótið í golfi þó hann sé rétt að komast af stað eftir langt hlé eftir hnéuppskurð.
Woods stefnir á að vinna sitt 15. stórmót á ferlinum með sigri á Augusta, en hann hefur leik með þeim Stewart Cink og Jeev Milkha Singh á fimmtudaginn.
"Ég veit að ég get unnið öll stórmótin. Ég hef gert það áður. Þetta er bara spurning um að vinna réttu mótin á réttum tíma og vonandi hefst það í þessari viku," sagði Woods og bætti við að hann ætti alltaf von á að vinna sigur þegar hann keppti á US Masters.