Innlent

Ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður

Guðjón Helgason skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, slær út af borðinu hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Aðild að ESB segir hún vera grundvöll að stefnu Samfylkingarinnar í efnahags- og atvinnumálum fyrir kosningar.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Dagur B. Eggertsson, varaformaður, kynntu í dag stefnu flokksins í efnahags-, atvinnu- og velferðarmálum. Þar eru kynntar ýmsar bráðaaðgerðir í atvinnumálum og svokölluð velferðarbrú fyrir heimilin sem felur í sér sértæk úrræði fyrir heimili sem eiga í alvarlegum skuldavanda. Formaður Samfylkingarinnar segir aðildarsamning við Evrópusambandið grundvöll áætlunarinnar og leggja grunn að stöðugleika.

Taka þurfi upp evruna í stað krónu en fram að því þurfi stuðning seðlabanka Evrópu í gjaldeyrismálum. Jóhanna segir þessa leið hafa verið rædda og hún talin raunhæf.

Formaður Samfylkingarinnar slær út af borðinu þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara skuli í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hún telur að það tefji bara málið og gefi ekki raunsanan mynd fyrir fólk til þess að það geti tekið afstöðu. Það geti það ekki fyrr en það viti um kosti og galla aðildar, hvað það sé sem íslenska þjóðin fái með aðild.

Jóhanna telur að núverandi stjórnarflokkar geti náð lendingu í evrópusambandsmálinu verði þeir áfram í stjórn. Báðir flokkarnir hafi sagt að það eigi að útkljá þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún hefur trú á því að Samfylkingin og Vinstri grænir finni lausn á málinu sem verði ásættanleg fyrir báða flokka eins og lausn hafi verið fundin í öllum málum á þeim 60 dögum sem flokkarnir hafi starfað saman í stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×