Viðskipti erlent

Atvinnuleysi nær áður óþekktum hæðum í vor

Atvinnuleysi eykst nú hröðum skrefum og er útlit fyrir að það nái áður óþekktum hæðum á vordögum, að því er segir í Morgunkorni greiningar Glitnis.

Nú eru yfir 14.700 manns atvinnulausir á landinu samkvæmt tölu á vefsíðu Vinnumálastofnunnar en það er rétt tæplega 9% af mannaflanum á vinnumarkaðinum.

Í Morgunkorninu er vitnað til yfirlits um stöðuna sem Vinnumálastofnun birti í gær á vinnumarkaði í janúar. Kemur þar fram að skráð atvinnuleysi í mánuðinum var að meðaltali 6,6%, sem jafngildir því að 2,554 manns hafi að jafnaði verð án vinnu.

Þetta er hæsta atvinnuleysishlutfall frá ársbyrjun 1995, þegar atvinnuleysi nam 6,8% af vinnuaflinu. Ólíkt því sem þá var er atvinnuleysi nú ört vaxandi og útlit fyrir að það fari í eða yfir 10% fyrir sumarið.

Fram kemur í yfirliti Vinnumálastofnunar að um síðustu mánaðamót voru 2.136 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í hlutastörfum. Samsvarar þetta tæplega fimmtungi þeirra sem skráðir voru atvinnulausir í janúarlok.

Ríflega helmingur þessa fólks fær greiddan hluta atvinnuleysisbóta í samræmi við það sem vantar upp á fullt starfshlutfall, samkvæmt lögum um hlutabætur sem sett voru í nóvember síðastliðnum. Þessi hópur hefur vaxið ört, en móttakendur slíkra bóta voru 668 í desemberlok og 210 í lok nóvember.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×